Helstu upplýsingar um kjarasamninga og réttindi aðstoðarfólks

Árið 2012 var undirritaður kjarasamningur milli NPA miðstöðvarinnar og Eflingar um störf aðstoðarfólks fyrir fatlað fólk með NPA. Um er að ræða sérstakan kjarasamning sem var unninn eftir fyrirmynd samskonar kjarasamninga á Norðurlöndunum og sniðinn að notendastýrðri persónulegri aðstoð. Var sérkjarasamningurinn sá fyrsti sinnar tegundar hérlendis.

Eftir nokkurra ára undirbúning var jafnframt samið við Eflingu og Starfsgreinasambandi Íslands - SGS, árið 2016, um hvíldarvaktir og sólarhringsvaktir (allt að 48 klst.).

Vaktaskrá

Skipuleggja skal vaktir aðstoðarfólks með a.m.k. viku fyrirvara og fyrir að jafnaði fjórar vikur í senn. Algengt er að vaktir séu skipulagðar 3-4 mánuði fram í tímann þar sem t.d. fjögurra vikna timabil er endurtekið nokkrum sinnum. 

Sé vaktaskrá breytt með minna en viku fyrirvara skal greiða tvo yfirvinnutíma og sé fyrirvarinn styttri en 24 klst. skal greiða 3 klst. í yfirvinnu.

Lengd vakta

Almennar vaktir skulu ekki vera styttri en 3 klst. og ekki lengri en 12 klst.

Sólahringsvaktir og tvær samliggjandi sólahringsvaktir eru einungis heimilar ef alla jafna er hægt að uppfylla lágmarkshvíld (sjá hvíldarvaktir) og skilyrði um hvíldaraðstöðu.

Hvíld á milli vakta

Almennar vaktir (3-12 klst.) skal skipuleggja með þeim hætti að aðstoðarfólk fái að lágmarki 11 klst. samfellda hvíld á sólarhring á milli vakta. Á skipulögðum vaktaskiptum er þó heimilt að stytta hvíldartíma niður í allt að 8 klst. á milli vakta.

Fyrir hverja staka sólahringsvakt skal samfelld lágmarkshvíld á milli vakta vera 11 klst.

Fyrir tvær samliggjandi sólahringsvaktir skal samfelld lágmarkshvíld á milli vakta vera tveir sólarhringar.

Bakvaktir

Aðstoðarfólk á bakvakt skal sinna útköllum og skal vera hægt að ná í það gegnum síma. Sé ekki um annað samið í ráðningarsamningi gildir eftirfarandi:

 • Fyrir bakvakt þar sem krafist er tafarlausra viðbragða skal greiða sem svarar 33% dagvinnustundar fyrir hverja klst. á bakvakt. Á almennum frídögum og stórhátíðum skal greiða 55% dagvinnustundar.
 • Fyrir bakvakt þar sem ekki er krafist tafarlausra viðbragða af hálfu aðstoðarfólks, en það er tilbúið til vinnu strax og til þess næst, þá greiðist 16,5% dagvinnustundar fyrir hverja klst. á bakvakt. Á almennum frídögum og stórhátíðum skal greiða 27,5% dagvinnustundar.
 • Greiða skal að lágmarki 3 klst. fyrir útkall á bakvakt, nema dagvinna hefjist innan tveggja stunda frá því ####aðstoðarfólk kom til vinnu.
 • Bakvaktargreiðslur og yfirvinnugreiðslur fari þó aldrei saman.

Hvíldarvaktir

Einungis er heimilt að skipuleggja sólarhringsvaktir og hvíldarvaktir með eftirfarandi hætti:

 • Stök sólarhringsvakt: Aðstoðarfólk á rétt á a.m.k. 5 klst. samfelldri hvíld sem þó má rjúfa að hámarki einu sinni. Þar að auki á aðstoðarfólk rétt á 1 klst. af hvíld á vaktinni. Fyrir hverja staka sólahringsvakt skal samfelld lágmarkshvíld á milli vakta vera 11 klst. 
 • Tvær samliggjandi sólarhringsvaktir: Aðstoðarfólk á rétt á a.m.k. 7 klst. samfelldri hvíld á sólarhring sem þó má rjúfa að hámarki einu sinni. Þar að auki á aðstoðarfólk rétt á 1 klst. til viðbótar á sólarhring. Fyrir tvær samliggjandi sólahringsvaktir skal samfelld lágmarkshvíld á milli vakta vera tveir sólarhringar.
 • Greiðslur fyrir hvíldarvaktir: Fyrir hvíldartíma á sólarhringsvöktum greiðist dagvinnutaxti.
 • Rof á hvíld: Þegar hvíld er rofin skal greiða viðeigandi vaktarálag fyrir a.m.k. 1 klst. 

Verkstjórnandi ber ábyrgð á að skipuleggja vaktir með þeim hætti að aðstoðarfólki sé tryggð næg hvíld á vöktum og á milli vakta. Sé ekki hægt að tryggja aðstoðarfólki nauðsynlega lágmarkshvíld á skipulögðum vöktum, þá má jafnframt ekki skipuleggja vaktir sem sólarhringsvaktir né nota hvíldarvaktir. Þó má takmarka hvíldartíma enn frekar, ef eitthvað ófyrirsjáanlegt kemur upp á, til að tryggja ásættanlega þjónustu við verkstjórnanda, en í slíkum tilvikum skal tryggja að aðstoðarfólk fái viðunandi hvíldartíma eins fljótt og mögulegt er.

Hvíldaraðstaða fyrir aðstoðarfólk er eitt skilyrða hvíldarvakta. Hvíldaraðstaðan skal vera í hentugu herbergi sem ekki er notað til annars á meðan á hvíld stendur. Hvíldaraðstaðan skal m.a. vera í hæfilegri nálægð við salerni og handlaug. Mjög miklivægt er að huga að góðri hvíldaraðstöðu fyrir aðstoðarfólk. Góð hvíldaraðstaða tryggir einkalíf og næði verkstjórnanda og gott vinnuumhverfi aðstoðarfólks.

Veikindaréttur

Greiðslur launa í veikinda- og slysatilfellum greiðast á sama tíma og aðrar launagreiðslur, enda hafi læknisvottorð borist í tæka tíð vegna launaútreikninga, sé þess krafist. 

Notandi getur krafist læknisvottorðs vegna veikinda aðstoðarfólks. NPA miðstöðin greiðir þá fyrir læknisvottorð.

Veikindaréttur NPA aðstoðarfólks samkvæmt aðalkjarasamningi:

 • Á fyrsta starfsári hjá sama vinnuveitanda: Tveir dagar á staðgengislaunum fyrir hvern unninn mánuð. 
 • Eftir eins árs samfellt starf hjá sama vinnuveitanda: Einn mánuður á staðgengislaunum. 
 • Eftir tveggja ára samfellt starf hjá sama vinnuveitanda: Einn mánuður á staðgengislaunum og einn mánuður á dagvinnulaunum. 
 • Eftir þriggja ára samfellt starf hjá sama vinnuveitanda: Einn mánuður á staðgengislaunum og tveir mánuðir á dagvinnulaunum. 
 • Eftir fimm ára samfellt starf hjá sama vinnuveitanda: Einn mánuður á staðgengislaunum, einn mánuður á fullu dagvinnukaupi (þ.e. dagvinnulaun, bónus og vaktaálög, sbr. gr. 8.3.2 í aðalkjarasamningi) og tveir mánuðir á dagvinnulaunum.

Verði veikindi umfram þessi réttindi greiðir sjúkrasjóður Eflingar sjúkradagpeninga.

Orlof, sumafrí

Lágmarksorlof á ári er 24 virkir dagar á ári. Sumarorlof er fjórar vikur eða 20 virkir dagar á ári sem veita ber á tímabilinu 2. maí til 30. september. Orlof umfram sumarorlof má veita utan þessa tímabils og skal ákveða með minnst eins mánaðar fyrirvara.

Orlofslaun eru a.m.k. 10,17% af dagvinnu og álagsgreiðslum. Orlofslaun eru jafnharðan greidd á sérstaka orlofsreikninga launþega í banka og greiðast út 11. maí ár hvert.

Greiðslur á ferðalögum

 • Mikilvægt er að skipuleggja lengri ferðir vel og að verkstjórnandi upplýsi aðstoðarfólk vel um verkramma og tilhögun ferðar. Hjá NPA miðstöðinni starfa reynslumiklir ráðgjafar sem geta aðstoðað við slíka skipulagningu.
 • Veiti aðstoðarfólk aðstoð sem stendur lengur en 24 klst. í ferðum verkstjórnanda, semur hann við aðstoðarfólk um hvernig greiðslum skuli háttað fyrir ferðina.
 • Náist ekki samkomulag um greiðslur á ferðum, skal aðstoðarfólk fá laun fyrir virkar vinnustundir samkvæmt launatöflu á meðan á dvölinni stendur og jafnframt allan ferðakostnað, svo sem gistingu, flug eða akstur ásamt dagpeningum fyrir fæði.
 • Breytingar á vöktum í tengslum við ferðir eða aðrar breyttar aðstæður skulu gerðar í fullu samráði við það aðstoðarfólk sem breytingarnar varða og því tilkynnt um breytingarnar eins fljótt og auðið er.

Uppsagnafrestur

Uppsagnarfrestur gildir fyrir báða aðila, þ.e. sami uppsagnarfrestur á við hvort sem verkstjórnandi segir aðstoðarfólki sínu upp eða ef aðstoðarfólk segir starfi sínu lausu. Uppsögn skal vera skrifleg. Uppsagnarfresti er háttað sem hér segir:

 • Fyrstu tvær vikurnar í starfi: Enginn uppsagnarfrestur.
 • Eftir tveggja vikna samfellt starf: 12 almanaksdagar.
 • Eftir þrjá mánuði samfellt í starfi: 1 mánuður, m.v. mánaðarmót.
 • Eftir tvö ár samfellt í starfi: 2 mánuðir, m.v. mánaðarmót.
 • Eftir þrjú ár samfellt í starfi: 3 mánuðir m.v. mánaðarmót.

Matar- og kaffitímar og neysluhlé

Aðstoðarfólk í vaktavinnu fær ekki sérstaka matar- eða kaffitíma, samkvæmt NPA kjarasamningi. Aðstoðarfólk fær greitt 5 mínútur af yfirvinnu fyrir hverja klst. vegna þessarar takmörkunnar.

Aðstoðarfólki er hins vegar að sjálfsögðu heimilt að neyta matar eða kaffis á vakt þegar því er viðkomið, viðmiðið er 15 mínútur fyrir hverja 6 klukkustundir á vakt. Telji aðstoðarfólk sig þurfa meiri hvíld eða matarhlé, er það hvatt til þess að ræða það við verkstjórnanda. Komi upp ágreiningur er fólk hvatt til að hafa samband við ráðgjafa hjá NPA miðstöðinni í síma 567 8270.

Vetrarorlof

Aðstoðarfólk hjá NPA miðstöðinni fær greitt 4,65% álag á dagvinnu vegna vinnuskildu á helgidögum.

Þessar upplýsingar eru unnar upp úr kjarasamningi NPA miðstöðvarinnar við Eflingu og aðalkjarasamningi Eflingar og eru ekki tæmandi. Ef upp koma ágreiningsmál skal styðjast við kjarasamninga.

Kjarasamningur NPA miðstöðvarinnar og Eflingu fyrir NPA aðstoðarfólk (2022)

Kjarasamningur NPA miðstöðvarinnar og Eflingu um hvíldarvaktir (2022)

Aðalkjarasamningur Eflingar og viðbætur

Verkstjórnendur og aðstoðarfólk er hvatt til þess að hafa samband við ráðgjafa NPA miðstöðvarinnar í síma 567 8270 eða This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. ef frekari spurningar vakna. Fullum trúnaði er heitið.