Nýr kjarasamningur NPA miðstöðvarinnar og Eflingar undirritaður fyrir jól

NPA miðstöðin og Efling skrifuðu undir nýjan kjarasamning vegna NPA aðstoðarfólks þann 20. desember síðastliðinn með fyrirvara um samþykki félagsfundar NPA miðstöðvarinnar. NPA miðstöðin mun kynna samninginn fyrir félagsfólki miðstöðvarinnar á rafrænum félagsfundi í janúar og verður samningurinn settur í atkvæðagreiðslu meðal félagsfólks NPA miðstöðvarinnar. Samningarnir gilda frá 1. janúar 2022 til 1. nóvember 2022.

Eftirfarandi atriði eru m.a. í nýjum aðalkjarasamningi NPA aðstoðarfólks:

  • Laun aðstoðarfólks hækka um 25.000 kr. 1. janúar 2022.
  • Þann 1. maí 2022 styttist vinnuvika aðstoðarfólks úr 40 niður í 36 klukkustundir á viku og vaktaálögum fjölgar.
  • Skiptar vaktir. Nú er heimilt að skipuleggja tvær stuttar vaktir samdægurs.
  • Meiri sveigjanleiki hvað varðar starfshlutfall.
  • Þeir sem sinna aðstoðarverkstjórn fá sérstakt álag.
  • Skýrari rammi er settur um fyrirkomulag ferðalaga.

Sérkjarasamningur aðstoðarfólks NPA miðstöðvarinnar
Kjarasamningnum var skipt í tvennt, einn samningur almennt um NPA aðstoðarfólk og annar sérkjarasamningur um heimil frávik frá vakt og hvíldartíma sem heimila lengri vaktir, sólahringsvaktir eða svokallaðar hvíldarvaktir. Sá sérkjarasamningur gildir nú einungis um aðstoðarfólk sem vinnur hjá NPA miðstöðinni.

  • Heimilar undanþágur hjá aðstoðarfólki NPA miðstöðvarinnar eru nú:
    • Styttri hvíldarvaktir. Vaktir á bilinu 8-12 klst.
    • Lengri hvíldarvaktir. Vaktir á bilinu 12-24 klst.
    • Stakar sólahringsvaktir.
    • Samfelldar sólahringsvaktir.
  • Þá hefur ýmsum skilyrðum verið breytt svo sem varðandi lágmarks hvíld og varðandi aðstöðu aðstoðarfólks.

Stytting vinnuvikunnar
NPA miðstöðin óskaði eftir að stytting vinnuvikunnar kæmi ekki strax til framkvæmda enda þurfa NPA verkstjórnendur, öðrum fremur, tíma til að undirbúa styttingu vinnuvikunnar. Styttingin tekur þar af leiðandi ekki gildi fyrr en í vor, 1. maí.

Félagsfundur í janúar
Kjarasamningurinn verður kynntur nánar á félagsfundi í janúar þar sem meðal annars verður farið yfir hagnýt atriði hvað varðar styttinguna, hvaða þýðingu hún hefur fyrir notendur og aðstoðarfólk og hvaða breytingar hún kallar á.

Kjarasamning NPA miðstöðvarinnar og Eflingar má sjá í þessum hlekk.pdf

Sérkjarasamning fyrir aðstoðarfólk NPA miðstöðvarinnar má sjá í þessum hlekk.pdf