Aðalfundur NPA miðstöðvarinnar 2023

23. maí 2023, uppfært 26. maí 2023

Aðalfundur NPA miðstöðvarinnar 2023 fór fram síðastliðinn laugardag, þann 20. maí í húsnæði NPA miðstöðvarinnar að Urðarhvarfi 8. Var vel mætt á fundinn.

Skýrsla stjórnar NPA miðstöðvarinnar
Nánari upplýsingar um starfsemi NPA miðstöðvarinnar á nýliðnu starfsári og helstu verkefni á næstunni, má finna í skýrslu stjórnar NPA miðstöðvarinnar 2023. Hér verða samt einnig rakin nokkur atriði um starfsemi og þjónustu NPA miðstöðvarinnar.

  • Í október 2021 hleypti NPA miðstöðin af stokkunum sex hluta námskeiðsröð um NPA. Á síðasta starfsári var boðið upp á 2 námskeið úr námskeiðsröðinni og 2 jafningjaspjöll. NPA miðstöðin var einnig með 2 erindi í Háskóla Íslands.
  • Í júní 2022 tilkynnti NPA miðstöðin að gert hefði verið samkomulag við Guðrúnu Jóhönnu Hallgrímsdóttur iðjuþjálfa. Félagsfólk NPA miðstöðvarinnar hefur nú kost á að fá ráðgjöf og þjónustu iðjuþjálfa sér að kostnaðarlausu, allt að þrisvar sinnum á hverju almanaks ári.
  • Samhliða vexti NPA miðstöðvarinnar var orðið mikilvægt að NPA miðstöðin mótaði sinn eigin siðasáttmála og verkferla vegna eineltis, áreitni og ofbeldis og var hvort tveggja tilbúið og sett í loftið síðastliðið haust, 2022.
  • NPA handbók verkstjórnenda, var sett í loftið í júní 2020 og er í stöðugri þróun. NPA handbókin er opin öllum. Handbók fyrir aðstoðarfólk er einnig í vinnslu. Verkið er umfangsmikið en þegar textaskrifum verður lokið verður handbókin sett á vefinn með sambærilegum hætti og handbók verkstjórnenda.

Fræðslunefnd NPA miðstöðvarinnar
Aðalfundur samþykkti að sett yrði á laggirnar fjögurra manna fræðslunefnd hjá NPA miðstöðinni. Í henni myndu sitja tvö úr hópi félagsfólks miðstöðvarinnar, einn stjórnarmeðlima miðstöðvarinnar og fræðslustýra.

Óskað er eftir tilnefningum í fræðslunefnd frá félagsfólki og senda má tillögur til This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.. Stjórn mun síðan skipa í nefndina.

Nýsamþykktir kjarasamningar
Aðalfundur samþykkti kjarasamninga NPA miðstöðvarinnar við Eflingu og Starfsgreinasambandið, sem undirritaður var þann 9. maí en áður hafði samningurinn verið samþykktur af félagsfólki Eflingar sem starfar hjá NPA miðstöðinni þann 19. maí síðastliðinn.

Nýkjörin stjórn
Rúnar Björn Herrera Þorkelsson var endurkjörinn formaður NPA miðstöðvarinnar. 2023 0523 Adalfundur stjorn3

Í aðalstjórn miðstöðvarinnar voru kosin:
Ágústa Arna Sigurdórsdóttir
Hallgrímur Eymundsson
Salóme Mist Kristjánsdóttir
Þorbera Fjölnisdóttir

Þrír varamenn í stjórn voru kosnir:
Fyrsti varamaður: Sóley Björk Axelsdóttir
Annar varamaður: Margrét Sigríður Guðmundsdóttir
Þriðji varamaður: Halldóra Sigríður Steinhólm Bjarnadóttir 

Kjarninn í starfsemi NPA miðstöðvarinnar
Leiðarljós NPA miðstöðvarinnar hefur ávallt verið hugmyndafræðin um sjálfstætt líf og leggur sú hugmyndafræði hornstein að starfsemi miðstöðvarinnar.

Kjarninn í starfsemi NPA miðstöðvarinnar er þjónusta við verkstjórnendur og aðstoðarfólk miðstöðvarinnar. Sú þjónusta og umsýsla er það sem mestur tími starfsfólks á skrifstofu fer í.

Hagsmunagæsla og réttindamál
NPA miðstöðin er ekki eingöngu umsýslufélag heldur einnig hagsmunafélag fatlaðs fólks og skipar hagsmunavarsla nokkuð stóran sess í starfi NPA miðstöðvarinnar enda var NPA miðstöðin upphaflega stofnuð sem baráttusamtök fyrir réttinum til NPA.

NPA miðstöðin átti t.d. frumkvæði að stofnun samráðshóps á síðasta ári sem sem beitti sér fyrir stefnumótun varðandi frekari innleiðingu NPA. Varð krafa þeirra til þess að stjórnvöld lofuðu auknum fjárframlögum og þar með u.þ.b. 50 nýjum NPA samningum á þessu ári, auk áætlunar um fjölgun NPA samninga árið 2024 og var þetta mikill áfangasigur.

Vöxtur NPA miðstöðvarinnar   
Núna, í maí 2023, er félagsfólk NPA miðstöðvarinnar 59 talsins. Fyrir ári síðan var félagsfólk NPA miðstöðvarinnar 54 talsins og hefur því fjölgað um 5 á undangengnu starfsári. Af félagsfólki NPA miðstöðvarinnar eru 50 með NPA samninga en 9 með beingreiðslusamninga. Þjónusta og umsýsla hjá miðstöðinni vegna beingreiðslusamninga fer fram með sama hætti og vegna NPA samninga. Félagsfólk með beingreiðslusamninga nýtur sömu réttinda hjá miðstöðinni og notendur með NPA samninga. 2023 05 Starfsmannavelta arsskyrsla

Á skrifstofu NPA miðstöðvarinnar starfa nú 17 einstaklingar; 8 NPA ráðgjafar (í þeim hópi eru fræðslustýra og teymisstýra ráðgjafa), 5 við bókhald og launagreiðslur, 1 upplýsingastæknimaður, samskiptastýra, auk framkvæmdastjóra og formanns.

Starfsemi NPA miðstöðvarinnar

  • Opnunartími NPA miðstöðvarinnar er mánudaga til fimmtudaga kl. 10:00-15:00 og föstudaga kl. 10:00-13:00.
  • Hægt er að fá samband við allt starfsfólk miðstöðvarinnar með því að senda tölvupóst á netfangið This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. eða hringja í síma 567 8270.
  • NPA miðstöðin vekur athygli á því að finna má NPA miðstöðina á Facebook og Instagram.

Áfram veginn
Verkefni nýs starfsár munu í megindráttum felast í áframhaldandi vinnslu og þróun verkefna sem nefnd hafa verið og sem fylgja uppbyggingu og vexti miðstöðvarinnar, t.d. þróun verkferla og þjónustulíkana á ýmsum sviðum miðstöðvarinnar, byggja upp fræðslu, vinna að handbókum, þróa ýmis tölvukerfi o.s.frv. Einnig þarf að undirbúa fjölgun í hópi félagsfólks miðstöðvarinnar sem er líkleg í ljósi loforða um fjölgun NPA samninga á árinu.

Stjórn og starfsfólk NPA miðstöðvarinnar hlakkar til að halda áfram að bæta þjónustu NPA miðstöðvarinnar, vinna að uppbyggingu hennar og beita sér í hagsmunabaráttu fatlaðs fólks á Íslandi. NPA miðstöðin mun að sjálfsögðu halda áfram sinni hagsmunagæslu fyrir fatlað fólk og réttinum til sjálfstæðs lífs.

Á mynd má sjá Hjört Örn Eysteinsson framkvæmdastjóra NPA miðstöðvarinnar sem var ritari aðalfundar, Þorberu Fjölnisdóttur meðstjórnanda í stjórn NPA miðstöðvarinnar, Hallgrím Eymundsson gjaldkera, Ágústu Örnu Sigurdórsdóttur meðstjórnanda og Rúnar Björn Herrera Þorkelsson formann NPA miðstöðvarinnar.

 

2556 × 426