Kynning á jafnvægishjólastólum

Heyra mátti mörg „Ó my god“ og „jahérna“ á kynningu á jafnvægishjólastólum hjá NPA miðstöðinni, miðvikudaginn 30. ágúst síðastliðinn.

Kynningin var á vegum Öryggismiðstöðvarinnar sem er með umboð fyrir jafnvægishjólastóla hér á landi. Stefán E. Hafsteinsson, iðjuþjálfi og vörustjóri fyrir Velferð hjá Öryggismiðstöðinni kynnti nokkrar gerðir af jafnvægishjólastólum og Margrét Lilja Arnheiðardóttir, formaður Sjálfsbjargar deildi reynslu sinni af því að nota jafnvægishjólastól. Kynningin var opin öllum og var vel sótt. 23 einstaklingar mættu og var greinilega mikill áhugi á stólunum. Mestur var spenningurinn fyrir hjólastól sem ber nafnið IBOT og fer upp og niður tröppur.

Bylting í rafknúnum hjólastólum
Rafknúnir jafnvægishjólastólar eru byltingarkennd hjálpartæki sem auka lífsgæði og frelsi fatlaðs fólks til að taka þátt í daglegu lífi. Jafnvægishjólastólarnir eru knúnir áfram með sjálfvirkri Segway jafnvægistækni sem gerir þeim kleift að keyra um á aðeins tveimur hjólum. Jafnvægishjólastólarnir eru einstakt og sveigjanlegt hjálpartæki sem hentar í fjölbreyttum aðstæðum, allt frá hefðbundnum verslunarferðum yfir í grófari utanvegaakstur í möl.

 

Myndatexti og myndlýsing: Stefán E. Hafsteinsson iðjuþjálfi og vörustjóri fyrir Velferð hjá Öryggismiðstöðinni stendur fyrir framan myndvarpa sem á eru myndir af rafknúnum jafnvægishjólastólum en myndirnar voru hluti af kynningunni. Stefán er í dökk blárri skyrtu og í ljósum buxum og notar hendurnar til að leggja áherslu á mál sitt.

 


Ágústa Arna skrifar