Viðtal við Ingu Björk Bjarnadóttur

Í sumar munum við reyna að birta vikuleg viðtöl við fatlað fólk sem er með NPA. Fyrsta viðtalið er birt hér á eftir, en þar segir Inga Björk Bjarnadóttir frá reynslu sinni:

Inga Björk1. Hver er þín reynsla af að lifa með skerðingu og lifa í fatlandi samfélagi? 

Það sem truflar mann kannski mest er aðgengisleysi og lítill vilji til þess að breyta því.

2. Hvernig kynntist þú NPA miðstöðinni?
Ég er alveg stjarnfræðilega gleymin og get ekki fullyrt um það, en mig minnir að ég hafi heyrt af NPA miðstöðinni í gegnum Greiningarstöð ríkisins.

3. Hvað varð til þess að þú ákvaðst að sækja um NPA

Ég var að klára menntaskóla, á leið í háskóla og var þar af leiðandi að fara að flytja að heiman. Það lá því beint við að sækja um NPA þjónustu.

4. Er einhver þáttur sem heillar þig sérstaklega varðandi hugmyndafræðina um Sjálfstætt líf og notendastýrða persónulega  aðstoð?
Í raun er þetta svo ótrúlega lógískt að það er ekkert beint í hugmyndafræðinni sem heillar mig. Þetta snýst einfaldlega um að fá aðstoð við það sem maður getur ekki sjálfur og öðlast þannig sjálfstæði.

5. Ef þú ert með NPA samning, hvernig hefur hann breytt lífi þínu?

Ég er laus við samviskubitið sem plagaði mig vegna þess að ég þáði mikla aðstoð frá fjölskyldu og vinum. Nú fyrst get ég farið að endurgjalda greiðana! Svo er það líka frelsið sem felst í því að geta bara gert nákvæmlega það sem mann langar, þegar mann langar.

6. Hvernig gekk að fá samþykktan NPA samning?
Vonum framar! Sveitarfélagið mitt sýndi þörfum mínum mikinn skilning.

7. Hvað var það í baráttunni fyrir NPA sem veitt þér mestan innblástur og kemur í veg fyrir að þú gefist upp?
Tilhugsunin um að enda í “öryrkjablokk” var nóg til þess að ég héldi áfram baráttunni. Reyndar kom aldrei til þess að ég þyrfti að standa í stappi við sveitarfélagið.

8. Af hverju ert þú mest stolt/ur í lífinu?
Ég veit það eiginlega ekki, það hefur sýnt sig að það að gefast aldrei upp og að hafa húmorinn á lofti kemur manni ansi langt í lífinu.

9. Áttu þér uppáhalds tilvitnun?
„Hamingjan er svona eins og að pissa í buxurnar. Allir sjá það, en þú ein finnur ylinn.“

10. Hvað gerir þú þegar þú ert ekki í vinnu eða skóla?
Til dæmis spila tónlist, hangsa með vinum mínum, fá mér eins og eitt rauðvínsglas og njóta lífsins almennt.

11. Ef þú mættir bjóða hverjum sem er í matarboð, hverjum myndir þú bjóða?
Sonny Rollins. 82 ára gamall og ennþá að túra!

12. Hvaða ráðleggingar myndir þú gefa foreldrum fatlaðra barna?
Að koma fram við börnin sín nákvæmlega eins og þau væru ófötluð. Ekki að ofvernda þau né leyfa þeim meira en hinum, útaf því að þau eigi svo bágt.

13. Hvaða ráðleggingar myndir þú gefa ungu fötluðu fólki?
Að vorkenna ekki sjálfum sér. Allir þurfa að “díla” við eitthvað í lífinu og ef maður hefur ekki trú á sjálfum sér, afhverju ætti einhver annar að gera það?