Raddir okkar allra skipta máli!
Viðmælandi vikunnar er engin önnur en Embla Ágústsdóttir, stjórnarformaður NPA miðstöðvarinnar.
1. Hver er þín reynsla af að lifa með skerðingu og lifa í fatlandi samfélagi?
Ég hef verið með skerðingu frá fæðingu og hef því upplifað fatlandi viðhorf samfélagsins allt mitt líf. Það sem fatlar mig mest í daglegu lífi er þegar fólk hlustar ekki á mig, tala um mig en ekki við mig og gengur út frá því að ég sé í ‘umsjón’ annarra og að líf mitt sé harmleikur.
2. Hvernig kynntist þú NPA miðstöðinni?
Ég áttaði mig á því hvernig NPA gengur fyrir sig þegar ég kynntist Freyju Haraldsdóttur og sá hvernig lífi hún lifði. Það var svo í maí árið 2010 sem Freyja sagði mér að til stæði að stofna samvinnufélag og bauð mér að taka þátt í stofnun og uppbyggingu þess.
3. Hvað varð til þess að þú ákvaðst að sækja um NPA?
Ég ákvað að sækja um NPA fljótlega eftir stofnun NPA miðstöðvarinnar. Ég sá það fljótt að NPA var eina leiðin fyrir mig til þess að geta flutt að heiman og lifað því lífi sem ég sjálf vil lifa.
4. Er einhver þáttur sem heillar þig sérstaklega varðandi hugmyndafræðina um Sjálfstætt líf og notendastýrða persónulega aðstoð?
Það sem heillar mig mest er áherslan á að við sjálf stýrum hverju einasta smáatriði sem snýr að aðstoðinni við okkur. Að ákveða sjálf hver aðstoðar, hvenær og námkvæmlega hvernig aðstoðin er framkvæmd. Einnig finnst mér mikilvæg áherslan á að NPA sé fyrir alla og allar þær fjölmörgu leiðir sem hægt er að fara við framkvæmd NPA.
5. Ef þú ert með NPA samning, hvernig hefur hann breytt lífi þínu?
Hann hefur breytt öllu lífi mínu. Í dag bý ég ein, stunda bæði háskólanám og vinnu, er ekki háð fjölskyldu og vinum og hef fulla stjórn á því hvernig mitt líf er og hvernig það þróast. Það eru ótrúlegustu hlutir sem hafa breyst og hef ég til dæmis uppgötvað áhugamál sem ég vissi ekki að ég hefði fyrren ég fékk aðstoð. Fyrst og fremst hefur NPA gert mér kleypt að vera ég sjálf námkvæmlega eins og ég vil vera og það skiptir mig mestu máli.
6. Hvernig gekk að fá samþykktan NPA samning?
Það tók rúm 2 ár og var ferlið mjög erfitt. Mér þótti mjög erfitt að sitja fjölda funda með bláókunnu fólki og rökstyðja hvers vegna það væri mikilvægt fyrir mig að fá aðstoð til þess geta sinnt mínum grundvallar þörfum.
7. Hvað var það í baráttunni fyrir NPA sem veitti þér mestan innblástur og kemur í veg fyrir að þú gefist upp?
Frá því ég kynntist fyrst NPA fór ég að hugsa hvernig ég vildi hafa lífið með notendastýrði aðstoð. Þegar ég stóð í sem mestri baráttu fyrir NPA hafði ég mjög skýra mynd í hugnum af því hvernig lífið gæti orðið og því hélt ég fast í þá mynd þegar mig langaði til að gefast upp. Einnig hafði ég mjög mikinn stuðning frá félögum í NPA miðstöðinni sem ýmist stóðu í sömu baráttu og ég eða voru komnir með NPA. Fyrirmyndir erlendis frá veittu mér einnig mikinn innblástur og gera enn.
8. Af hverju ert þú mest stolt/ur í lífinu?
Ég held að ég sé mest stolt af því að hafa í gegnum tíðina tekið mark á viðhorfum fjölskyldu minnar og gengið út frá því að líf mitt sé jafn mikilvægt og líf annarra og að ég skuli hafa sömu tækifæri og aðrir. Samfélagið sendir mér stöðugt þau skilaboð að líf mitt sé ekki eftirsóknarvert, að ég skuli vera þakklát og ekki gera of miklar kröfur. Það getur verið erfitt að hunsa þessi skilaboð þar sem þau koma úr öllum áttum. Ég má samt aldrei gleyma því að ef ég ber ekki virðingu fyrir sjálfri mér þá er enn ólíklegra að aðrir geri það.
9. Áttu þér uppáhalds tilvitnun?
,,No one can take away your self respect if you do not give it to them” - Gandhi
10. Hvað gerir þú þegar þú ert ekki í vinnu eða skóla?
Mér þykir mjög gaman að borða góðan mat og bjóða fólki í mat. Einnig finnst mér dásamlegt að eiga notalega stund með fjölskyldu og vinum og tala um allt milli himins og jarðar.
11. Ef þú mættir bjóða hverjum sem er í matarboð, hverjum myndir þú bjóða?
Þetta er mjög erfið spurning... Ég væri mikið til í að bjóða Aimee Mullins eða Eve Ensler í mat. Svo væri reyndar ekkert leiðinlegt að bjóða Lady Gaga í mat og fá að heyra aðeins hvað hún er að spá. Ég veit samt ekkert hvað ég ætti að elda, það væri örugglega mikil hausverkur að finna útúr því!
12. Hvaða ráðleggingar myndir þú gefa foreldrum fatlaðra barna?
Hafið trú á barninu ykkar, ekki taka ‘sérfræðingunum’ of hátíðlega þegar þeir fara að fullyrða hvað barnið kemur til með að geta gert. Þegar upp er staðið hafa viðhorf foreldrana afgerandi áhrif á sjálfsmynd barnsins og því megum við aldrei gleyma.
13. Hvaða ráðleggingar myndir þú gefa ungu fötluðu fólki?
Gerið kröfu um jöfn tækifæri, ekki efast um ykkur sjálf og setjið ykkur háleitt markmið. Raddir okkar allra skipta miklu máli og þær þyrfa að heyrast sem víðast!