Óréttlátt að mismuna fólki af því að það er fatlað
Viðmælandi okkar í þessari viku er Áslaug Ýr Hjartardóttir, en hún er nýkomin með NPA samning.
1. Hver er þín reynsla af að lifa með skerðingu og lifa í fatlandi samfélagi?
Maður getur ekki gert eins mikið og aðrir, get til dæmis ekki farið hvert sem er út að borða vegna lélegs aðgengis. Svo er frekar fyndið hvernig fólk bregst við þegar það áttar sig á að ég er daufblind, sumir fara alveg í hnút á meðan aðrir reyna að átta sig á aðstæðum og halda kannski að best væri að tala við mig eins og ég væri lítið barn.
2. Hvernig kynntist þú NPA miðstöðinni?
Ég man það eiginlega ekki alveg. Eldri systir mín er einnig fötluð og foreldrar mínir eru alltaf með eitthvað nýtt til að fást við, kuðungígræðslu, NPA, o.fl. og vilja gera allt til þess að við systur getum lifað sómasamlegu lífi. Einhvern tímann fóru þau að pæla í þessari stórsniðugu þjónustu, NPA, og fyrr en varði var ég kolfallin fyrir þessu enda langar mig hvorki að eyða ævinni á sambýli né hanga í einhverjum ættingja allt mitt líf.
3. Hvað varð til þess að þú ákvaðst að sækja um NPA?
Ég vil lifa sjálfstæðu lífi og gera hluti sem annað fólk gerir, eiga hús, bíl, börn, fara til útlanda, vinna, kaupa í matinn, fara í partý...
4. Er einhver þáttur sem heillar þig sérstaklega varðandi hugmyndafræðina um Sjálfstætt líf og notendastýrða persónulega aðstoð?
Já, ég er mjög hrifin af nýju skilgreiningunni á sjálfstæði skv. NPA. Þar segir að sjálfstæði þarf ekki að þýða að gera allt upp á eigin spýtur, heldur að gera allt með viðeigandi aðstoð.
5. Ef þú ert með NPA samning, hvernig hefur hann breytt lífi þínu?
Ég er bara nýkomin með samning og því ekki mikið að segja frá breytingum. Hins vegar hefur það haft áhrif á líf mitt hve allt er skipulagt, mér líður pínu eins og atvinnurekanda í stóru fyrirtæki; auglýsa eftir starfsfólki, fara yfir ferilsskrár, taka viðtöl, ráða, reka.... En ég er viss um að þetta venst, ég þarf bara að fá mér sérstaka dagbók til að skrá allt þetta niður.
6. Hvernig gekk að fá samþykktan NPA samning?
Það tók langan tíma, við fjölskyldan vorum eiginlega farin að halda að ekkert myndi gerast þegar einn daginn var hringt og tilkynnt um samninginn. Svo tók við endalaust af pappírsvinnu en þar sem ég er undir lögaldri lét ég mömmu mína um það.
7. Hvað var það í baráttunni fyrir NPA sem veitt þér mestan innblástur og kemur í veg fyrir að þú gefist upp?
Ég er ákveðin manneskja og hef mjög sterkar skoðanir. Mér finnst óréttlátt að mismuna fólki bara af því það er „fatlað“. Allir eiga rétt á einkalífi og þar sem við lifum bara einu sinni þá höfum við engu að tapa. Sáttmáli SÞ um réttindi fatlaðs fólks hjálpar líka, því þá veit ég hvaða réttindi ég hef. Auk þess hef ég litið til Mannréttindasáttmála SÞ, reyndar ekki lesið hann allan en samt nóg til að vita hitt og þetta. Skv. Mannréttindasáttmálanum á fólk rétt á ferðafrelsi, trúfrelsi og tjáningarfrelsi (að vissu marki) og þar sem fatlaðir eru fólk og tilheyra mannkyninu þá á fatlað fólk sömu mannréttindi og aðrir. En spurningin er: Eru mannréttindi fatlaðs fólks virt?
8. Af hverju ert þú mest stolt/ur í lífinu?
Að ég skyldi enn vera á lifi. Ég er sammála Darwin um að sá hæfasti lifi af og þar sem ég er enn lifandi tel ég mig vera hæfa til þess.
9. Áttu þér uppáhalds tilvitnun?
Nei, það fer allt eftir aðstæðum hvaða tilvitnun hentar best. Til dæmis þegar ég hugsa um NPA þá dettur mér í hug: „Hver er sinnar eigin gæfu smiður“.
10. Hvað gerir þú þegar þú ert ekki í vinnu eða skóla?
Ýmislegt sem íslenskir unglingar gera yfirleitt, hangi í tölvunni, les bók, horfi á bíómynd, fer út, tek til í herberginu, sinni heimavinnunni o.fl.
11. Ef þú mættir bjóða hverjum sem er í matarboð, hverjum myndir þú bjóða?
Sko, ég er ekki mikið fyrir matarboð en ef ég þarf endilega að halda eitt slíkt myndi ég bjóða vinum mínum og auðvitað systur minni líka.
12. Hvaða ráðleggingar myndir þú gefa foreldrum fatlaðra barna?
Að hafa hugann opinn fyrir öllu og ekki vefja barnið inn í bómull. Barn er barn jafnvel þó það sé með einhverja skerðingu og börn eru lifandi einstaklingar með sínar eigin tilfinningar og framtíð.
13. Hvaða ráðleggingar myndir þú gefa ungu fötluðu fólki?
Ert þú að biðja um ráð varðandi eldamennsku eða prjónaskap? Haha, það fer nú eftir því um hvern er verið að ræða. En hér er eitt gott ráð, njóttu lífsins eins og þú getur á meðan enn er tími til þess. Þú ert ung manneskja með heila framtíð fyrir þér, svo eftir hverju ertu að bíða?