Evrópusamtök um sjálfstætt líf (ENIL) fagna lykilleiðsögn Sameinuðu þjóðanna um réttinn til sjálfstæðs lífs

Evrópusamtökin um sjálfstætt líf (ENIL, European Network on Independent Living) fagna nýlegri samþykkt Almennra ábendinga nr. 5 um 19. gr. Samningsins SÞ um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) um rétt fatlaðs fólks til að lifa sjálfstæðu lífi og vera þátttakandi í samfélaginu. Þetta er lykilatriði og skref fram á við hvað varðar að skýra skuldbindingar aðildarríkja samningsins og skapar möguleika á bættu aðgengi að sjálfstæðu lífi.

Almennar ábendingar um 19. gr., sem samþykkar voru af Nefnd SÞ um réttindi fatlaðs fólks á 18. fundi hennar, 29. ágúst 2017, er skjal sem skýrir innihald 19. gr. SRFF, þar á meðal helstu skilgreiningar. Í skjalinu er fjallað um grundvallarþætti réttar til sjálfstæðs lífs, fylgt eftir með ítarlegri kynningu á skuldbindingum aðildarríkjanna, tengsl við aðrar greinar í SRFF og þær nauðsynlegu ráðstafanir sem ber að gera til að tryggja framkvæmd 19. gr.
 
 
Það sem gerir þessar Almennu ábendingar um 19. gr. sérstaklega mikilvægar er sú staðreynd að 19. gr. er „ein víðtækasta og mest skarandi greinin við aðrar greinar innan SRFF“ og er „óaðskiljanleg fyrir innleiðingu samningsins“, sem slík. ENIL var virkur þátttakandi í undirbúningi Almennra ábendinga um 19. gr. og birti skýrslu og nokkur tilmæli til að aðstoða nefndina (og sama gerði fjöldi annarra samtaka og aðila; innskot þýðanda).
 
ENIL eru samtök sem hafa sjálfstætt líf fatlaðs fólks að meginmarkmiði og að efla framgang þess. ENIL er þakklátt SRFF nefndinni fyrir að hlusta á hreyfingu okkar. Niðurstaðan er sú að Almennar ábendingar um 19. gr. skýra á greinargóðan hátt hugtökin „sjálfstætt líf“, „notendastýrð persónuleg aðstoð“ og „afstofnanavæðing“ og dregur fram þau atriði sem ekki eru talin vera í samræmi við 19. gr. T.d. segir að „hvorki stórar stofnanir með meira en hundrað íbúa né heimili minni hópa með 5 til 8 einstaklingum eða jafnvel einstök heimili geti kallast byggð á hugmyndafræðinni um sjálfstætt líf ef þau hafa aðra skilgreinda þætti sem einkenna stofnanir eða stofnanavæðingu“.  Aðildarríki SRFF hafa „nú þegar“ skuldbindingar og þess vegna „að skipta um allar stofnanabundnar aðstæður þar sem í staðinn komi stuðningsþjónusta byggð á sjálfstæðu lífi“.
 
Mikilvægt er að aðildarríkjum er óheimilt að nota sjóði hins opinbera eða einkaaðila til að viðhalda, endurnýja eða byggja upp nýjar stofnanir. Þvert á móti verða þessir aðilar að nota tiltækt fé til að þróa aðgengilegt og hagkvæmt húsnæði, bjóða upp á notendastýrða persónulega aðstoð og gera almenna þjónustu samfélagsins og aðstöðu aðgengilega fyrir fatlað fólk. Aðilar verða að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að allt fatlað fólk - óháð aldri eða öllum öðrum einkennum - geti lifað sjálfstætt í samfélaginu. Sérstaklega er í Almennar ábendingar um 19. gr. lögð brýn áhersla á að hætta stofnanavæðingu barna og hópa sem búa við mestu umönnun stofnana, búa í stofnanaumhverfi (eins og t.d. fólk með þroskahömlun og geðsjúkdóma).
 
Almennar ábendingar um 19. gr. eru skyldulesning  fyrir alla þá sem taka þátt í innleiðingu, eftirliti og koma á framfæri Samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks; ríkisstjórnir, ESB stofnanir,  samtök fatlaðs fólks, mannréttindastofnanir ríkja, þjónustuveitendur og aðrir. ENIL mun beina kröftum sínum að því að þróa og bjóða þjálfun, fræðslu og koma á framfæri Almennu ábendingum um 19. gr., til að tryggja að mælanlegar aðgerðir eigi sér stað til að sjálfstætt líf verði raunveruleiki fyrir allt fatlað fólk. 
 
Tenglar:
Almennar ábendingar nr. 5 um 19. gr. Samningsins SÞ um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) um rétt fatlaðs fólks til að lifa sjálfstæðu lífi og vera þátttakandi í samfélaginu.
• Upplýsingar um Nefnd SÞ um réttindi fatlaðs fólks á Wikipedia á Wikipedia.
Valfrjáls bókun við samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks á vef Mannréttindaskrifstofu Íslands.
 
Fréttatilkynning, dags. 29. september 2017, frá ENIL Evrópusamtökum um sjálfstætt líf.

Þýðing fréttatilkynningar: Ragnar Gunnar Þórhallsson (frumtexti gildir ávallt umfram þýðinguna á íslensku).