Þriðja bylgja COVID-19 á Íslandi

Eins og allir vita fjölgaði COVID-19 smitum töluvert fyrir stuttu og er litið svo á að þriðja bylgja faraldursins sé nú í gangi hérna á Íslandi. Fjöldi greindra smita á dag náði hámarki þann 18. september síðastliðinn þegar 75 aðilar greindust með veiruna. Síðan þá hefur fjöldi nýgreindra yfirleitt verið á fjórða tug einstaklinga dag hvern. Samkvæmt yfirvöldum gengur vinna rakningarteymis vel.

NPA miðstöðin hvetur notendur og aðstoðarfólk til að halda vöku sinni og rifja reglulega upp helstu leiðbeiningar vegna C-19 og jafnframt fylgjast með og kynna sér nýjar fréttir og upplýsingar eftir því sem þær berast. Við bendum sérstaklega á leiðbeiningar NPA miðstöðvarinnar vegna COVID-19 sem má finna hér fyrir neðan, auk ýmissa frekari upplýsinga

Þrír broskallar, einn grænn brosandi, einn appelsínugulur hluthlaus og einn rauður í fýlu. Merkt er við græna kallinnJafnframt er skynsamlegt fyrir hvern notanda að búa til sína eigin viðbragðsáætlun sem á við aðstæður hvers og eins persónulega. Gott er að hafa leiðbeiningar NPA miðstöðvarinnar til hliðsjónar þegar viðbragðsáætlun er útbúin en auk þess gæti viðbragðsáætlunin t.d. falið í sér eftirfarandi.

  • Ef þú býrð ekki einn, hvernig muntu haga sóttkví eða einangrun? Er hægt að viðhalda sóttkví en búa áfram inni á heimilinu ásamt öðru heimilisfólki? Slíkt fer eftir húsnæði og heimilisaðstæðum og er t.d. mun auðveldar að tryggja sóttkví, séu fleiri en eitt baðherbergi á heimili. Ef ekki er hægt að viðhafa trygga sóttkví á heimilinu, hver mun þá flytja út af tímabundið, þú eða þeir sem með þér búa? Hvar munu þeir útfluttu búa?
  • Áttu börn? Hver mun hugsa um barnið/börnin farir þú einn í sóttkví eða einangrun? Mun umönnunaraðili barna búa inni á heimilinu ásamt börnunum og þú flytja út eða öfugt?
  • Hvernig verður öflun vista háttað? Hver og hvernig er helstu nauðsynja aflað, t.d. verslað í matinn eða lyf keypt?
  • Áttu dýr? Hver mun hugsa um dýrin, veikist þú illa?
  • Hvernig muntu haga vinnufyrirkomulagi og aðbúnaði aðstoðarfólks, farir þú í einangrun? 

Loks vekjum við athygli á hjálparleiðum fyrir fólk sem finnur fyrir kvíða vegna C-19 en það er mjög eðilegt að fólk finni fyrir kvíða í þeim aðstæðum sem nú blasa við. Það er enn skiljanlegra að við, sem reiðum okkur á aðstoð annarra til að komast í gegnum dagana og höfum jafnvel misgóða reynslu af heilbrigðiskerfinu eða kerfum yfirleitt, finnum fyrir kvíða. Ofan á þetta bætist að sumir þeirra sem gætu verið útsettir fyrir verunni viðhafa nokkurskonar sjálfskipaða sóttkví. Í slíkri einangrun getur verið auðvelt að festast einn með sinn kvíða. Við hvetjum ykkur til að leita stuðnings og hjálpar ef þið finnið til kvíða og/eða vanlíðunar og draga það ekki.

Eftirfarandi aðilar sinna andlegri sálgæslu

Hjálparsími Rauða krossins 1717 (opinn allan sólarhringinn)
Netspjall Rauða krossins (er einnig í boði á pólsku)

Heilsugæslustöðin þín
Heilsuvera (netspjall í boði kl. 9-12 og 13-22 virka daga og kl. 10-16 á frídögum)
Samtal og stuðningur á netinu hjá djáknum og prestum

Einnig má nefna

Læknavaktin, sími 1700. Símavakt allan sólarhringinn
Athvörf vegna ofbeldis.
Kvennaathvarfið sími 561 1205. Bjarkarhlíð sími 553 3000. Bjarmahlíð Akureyri, sími 551 2520.
Netfundi AA, NA og Al-anon.
Rótin - félag um konur, áföll og vímugjafa

Hér má finna ýtarlegri upplýsingar um ofangreint. https://www.covid.is/hafa-samband

Loks má að sjálfsögðu leita til NPA miðstöðvarinnar með spurningar og álitamál.

Gangi ykkur vel!