Fréttir af bólusetningum í upphafi árs

Birt 6. janúar 2021 kl. 10:50, uppfært 7. janúar kl. 10:20, kl. 13.03 og 14:41 og 8. janúar kl. 12:03

NPA miðstöðinni hafa á nýju ári borist uppfærðar upplýsingar um fyrirkomulag og forgangsröðun bólusetninga. NPA miðstöðin hefur tengilið hjá landlækni og almannavörnum og hefur jafnframt verið í samskiptum við tiltekin sveitarfélög og heilsugæslur.

Bólusetning nánast heillar þjóðar er stórt verkefni og eins og áður hefur komið fram eru ýmsir óvissuþættir og jafnframt atriði sem skýrast ekki að fullu fyrr en verkefninu vindur fram. Upplýsingar NPA miðstöðvarinnar geta þar af leiðandi uppfærst eftir því sem framkvæmd mála skýrist og upplýsingar berast. NPA miðstöðin vill samt gjarnan miðla þeim upplýsingum sem hafa borist en setur þær nú sem áður fram með fyrirvara.

FORGANGSHÓPAR
Eins og fram kom í fyrri pósti eru NPA notendur ekki allir saman í forgangshópi enda um fjölbreyttan hóp að ræða. NPA notendur falla líklega helst í eftirfarandi forgangshópa:

FORGANGSHÓPUR 3

  • Einstaklingar sem dvelja á hjúkrunar- og dvalarheimilum og öldrunardeildum sjúkrahúsa en líka aðrir, t.d. líklega einstaklingar sem hafa heimahjúkrun en auk þess eru fleiri þættir notaðir til viðmiðunar.
  • Einhverjir NPA notendur á höfuðborgarsvæðinu hafa verið skilgreindir í forgangshóp 3 og voru bólusettir milli jóla og nýárs.

FORGANGSHÓPUR 6

  • Einstaklingar eldri en 60 ára.
  • Stefnt er að því að boða þennan hóp í bólusetningu, samkvæmt þjóðskrá.

FORGANGSHÓPUR 7

  • Einstaklingar með undirliggjandi langvinna sjúkdóma eða aðra áhættuþætti vegna COVID-19.
  • Þeir verða boðaðir í bólusetningu út frá sjúkraskrám.

FORGANGSHÓPUR 9
Líklega falla einhverjir NPA notendur sem ekki eru með undirliggjandi sjúkdóma eða áhættuþætti í hóp 9, mögulega ungt fólk með þroskaskerðingar svo dæmi sé tekið.

AÐSTOÐARFÓLK

  • Aðstoðarfólk er í forgangshópum 5 eða 8 og ræðst það líklega af því í hvaða forgangshóp NPA notandinn er sem það starfar fyrir.
  • Aðstoðarfólk NPA notanda í forgangshópi 7 eða 9, er líklega í forgangi 8.
  • Aðstoðarfólk NPA notanda í hópi 3 eða 6, yrði líklega í hóp 5.
  • Hugsanlega er aðstoðarfólk í einhverjum tilvikum sett í forgangshóp 2 og þá helst þegar NPA notandinn er í forgangshópi 3.

FRAMKVÆMD
NPA miðstöðin og tengiliður hennar vakti athygli á því í desember að útbúa þyrfti lista yfir NPA notendur og aðstoðarfólk þess. Reykjavíkurborg og Hafnarfjarðarbær höfðu samband við NPA miðstöðina og hefur lista yfir NPA notendur og aðstoðarfólk þeirra verið komið á framfæri við heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Til stendur að vekja sérstaka athygli á stöðu NPA notenda við framkvæmdastjóra hjúkrunar á heilsugæslustöðvum á landsbyggðinni. Vegna fámennis næst líklega betri yfirsýn víða á landsbyggðinni og framkvæmd bólusetningarinnar þar með einfaldari heldur en á höfuðborgarsvæðinu. Þess vegna verður líklega ekki hjá því komist að eitthvert ósamræmi geti orðið í framkvæmdinni á milli sveitarfélaga.

Hér má sjá reglugerð um forgangsröðun fólks í bólusetningu:

Við vekjum athygli á samantekt og tilkynningum um bólusetningar á covid.is.

Loks minnum við á leiðbeiningar fyrir einstaklinga með áhættuþætti fyrir alvarlegri COVID-19 sýkingu.

Edit:
 Samkvæmt fréttum þann 6. janúar verður lögð áhersla á að bólusetja fólk sem er sjötíu ára og eldra þegar næsta sending af bóluefni berst til landsins. Samkvæmt þessu verður eldra fólk (allavega að hluta til) sett fram fyrir heilbrigðisstarfsfólk og annað starfsfólk á vettvangi í forgangshópum 4 og 5. Þrjátíu og fjögur þúsund manns eru sjötíu ára og eldri. Áætlað er að næsta sending frá Pfizer komi til landsins, 21. janúar. Jafnframt er vonast til að fyrsti bóluefnaskammtur frá Moderna berist í næstu viku og hefur Lyfjastofnun samþykkt markaðsleyfi fyrir það. Það sem er í hendi núna samkvæmti Þórólfi er að það muni berast bóluefni fyrir 30.000 manns til landsins til loka mars. Lesa má ýtarlegar um málið hér og hér.

Edit: Samkvæmt hádegisfréttum RÚV 7. janúar segir Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir ólíklegt að hægt verði að bólusetja fólk yngra en 70 ára með undirliggjandi sjúkdóma fyrr en eftir mars. Taka skal fram að aðrir þættir geta haft áhrif á þessa forgangsröðun og NPA miðstöðin hefur haft spurnir af einstaka yngri NPA notendum með undirliggjandi sjúkdóma sem hafa nú þegar verið bólusettir.

Edit: Einstaklingar sem njóta NPA á eigin heimili og hafa mikla þjónustuþörf geta verið metnir á þann hátt að það jafngildi hjúkrunarheimili (þ.e. forgangshópi 3) segir Sigríður Dóra Magnúsdóttir, umdæmislæknir sóttvarna og framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Hún segir að í þeim tilvikum svipað og í tilvikum sambýla og dagdvalar sé það svonefnd hjúkrunarþyngd sem ráði því hvar fólk er í forgansröðinni. „Við erum ekki að bólusetja út af greiningum heldur erum við að bólusetja eftir því hvað greiningin er að valda þér miklum sjúkdómi“, sagði Sigríður og sagði jafnframt að það hafi örugglega gætt einhvers misræmis en þau hafi reynt að gæta sanngirni.“ Hér má sjá viðtal Vísis við Sigríði.

Edit: Sérfræðingar á Barnaspítala Hringsins hafa gefið frá sér meðfylgjandi yfirlýsingu um bólusetningu barna gegn SARS-CoV-2 (sjá hlekk í grein).


Image by Wilfried Pohnke from Pixabay