Aðgreinandi úrræði mismunun?
Þann 18. janúar birti ég pistilinn „Annars flokks fólk: Konur, kynvillingar og fatlað fólk“ með það að markmiði að benda á þá grunnþætti sem sameinað hafa réttindabarráttur ólíkra minnihlutahópa síðustu áratugina. Slíka umræðu tel ég mikilvæga til áminningar um möguleika okkar til breytinga og framfara.
Bergþóra Bachmann brást harkalega við pistli mínum þann 19. janúar og mátti þar sjá hve ólíkan skilning við leggjum í hugtakið fötlun og réttindabaráttu fatlaðs fólks. Bergþóra segir; „Ég sætti mig við og viðurkenni að það hafa fylgt fjölskyldu minni ýmsar takmarkanir vegna fötluðu systur minnar og það var oft erfitt fyrir okkur hin í systkinahópnum að við, sem fjölskylda, gátum ekki gert eitthvað út af systur okkar.“
Hún segir jafnframt; „Hún á rétt á því að vera ekki strítt í frímínútum vegna fötlunar sinnar. Hún á rétt á lífi þar sem hún er jafningi þeirra sem hún umgengst daglega.“ Af þessu að dæma álítur Bergþóra rót vandans liggja í skerðingu systur sinnar. Fyrir mér blasir þetta öðruvísi við þar sem ég hef alla tíð upplifað hamlandi viðhorf samfélagsins mun stærra vandamál í mínu lífi heldur en mína líkamlegu skerðingu. Með hamlandi viðhorfum á ég t.d. við að ástæða þess að ég hef ekki fulla stjórn á eigin lífi sé ekki vegna líkamlegrar skerðingar minnar, heldur vegna þess að samfélagið sem ég bý í ber ekki sömu virðingu fyrir mér og hefur ekki sömu væntingar til mín og annarra.
Í ofangreindum pistli mínum legg ég þennan skilning á fötlun til grundvallar og bendi á þá mismunun sem felst í því að bjóða upp á aðgreinandi sérúrræði. Þegar ég fjalla um hugtakið mismunun geng ég út frá skilgreiningu Sameinuðu þjóðanna og alþjóðlegra mannréttindasamninga. Árið 2006 var lagður fram Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks en samkvæmt hans skilgreiningu er mismunun:
„Hvers kyns aðgreining, útilokun eða takmörkun sem byggð er á líffræðilegri skerðingu fólks sem hefur þau áhrif eða markmið að hindra eða koma í veg fyrir að fatlað fólk fái viðurkennd mannréttindi og grundvallarfrelsi á sviði stjórnmála, efnahagsmála, félagsmála, menningarmála, borgaralegra mála eða á sérhverju öðru sviði, geti notið þeirra eða fengið þeim framfylgt.“
Miðað við skilgreininguna er ljóst að íslenskt samfélag mismunar fötluðu fólki með því að hafa í boði aðgreinandi úrræði, t.d. sambýli, verndaða vinnustaði, sérskóla og sérdeildir, skammtímadvalir og ferðaþjónustu fatlaðs fólks. Slík úrræði eru alls ráðandi og fátt annað, sem stuðlar að þátttöku, frelsi og sjálfstæði fatlaðs fólks er í boði. Um leið og ég álít það alvarlega staðreynd myndi aldrei hvarfla að mér að líta svo á að foreldrar fatlaðra barna eða fullorðið fatlað fólk sem notar sérúrræði ættu að skammast sín fyrir það – valið er nánast ekkert.
Það hlýtur að teljast sorglegt að íslenskt samfélag skuli enn byggja velferða- og menntakerfi sitt á ríkri aðskilnaðarstefnu þrátt fyrir að það heyri til undantekninga víða um heim. Pistill minn snérist ekki um það hvort tiltekin sérúræði væru góð eða slæm heldur um ábyrð samfélagsins alls á að virða mannlega reisn allra þegna og skapa skilyrði fyrir alla til að búa við mannréttindi. Nýlegar rannsóknir sem gerðar hafa verið í samvinnu við fatlað fólk og aðstandendur þeirra hér á landi og erlendis sýna að fatlað fólk vill alast upp í eigin fjölskyldum, ganga í almenna skóla, taka sama strætóinn og fólkið í hverfinu, vinna við það sem er í takt við menntun og áhuga þess, flytja að heiman og eignast fjölskyldu.
Það hlýtur að vera skylda okkar að hlusta á þær raddir!