Eignaðist þú barn í vagninn?

Fyrir nokkrum vikum birtist, á Stöð 2, nema hvað, viðtal við þungaða konu, og tilefnið, jú hún er „fötluð.“

Konan var hamingjusöm með væntanlega fjölgun í fjölskyldunni og ekki annað að heyra en hún væri tilbúin að takast á við þetta nýja verkefni þó reyndar hafi komið fram að hún þyrfti meiri notendastýrða persónulega aðstoð en hún fær í dag þegar til þess kemur að annast þarf barnið. Sú aðstoð sem hún hefur í dag nægir ekki fyrir hana sjálfa og vinnan mun eðlilega aukast þegar nýr einstaklingur lítur dagsins ljós á heimilinu.

Þetta viðtal og ekki síður umræðurnar sem undirrituð varð vitni að í kjölfarið rifjaði upp gamla minningu um barnavagn.

Fyrir u.þ.b. 17 árum fól systir mín mér það verkefni að selja fyrir sig gamlan barnavagn. Hún bjó í litlu þorpi úti á landi þar sem kaupendur voru fáir, en ég bjó í menningunni í „stórborginni“ Reykjavík þar sem söluvonin var mun meiri. Þetta var svona gamaldags barnavagn, grár og úr stáli, og auðséð, þó hann væri alveg óskemmdur, að hann hafði þjónað mörgum litlum krílum í gegnum árin. Vagninum var semsagt stillt upp í forstofunni hjá mér, hann auglýstur rækilega í smáauglýsingum blaðanna, með mynd og símanúmeri, og svo hófst biðin eftir viðbrögðum. Og viðbrögðin létu ekki á sér standa. Þá, líkt og nú, gengu óléttar konur um bæinn, lásu blöðin og spáðu í nauðsynlega hluti fyrir ófæddu krílin sín. Og margar ráku augun í auglýsinguna, hringdu í mig og vildu koma og skoða. Og margar komu og mörgum leist vel á, en einhverjum þótti hann þó heldur dýr. En það sem vakti mesta athygli mína var sú staðreynd að þær höfðu miklu meiri áhuga á að vita hvort ég hefði fætt af mér afkvæmi í vagninn.

Þegar ég áttaði mig á því að þær höfðu mun meiri áhuga á að vita hvort ég hefði notað hann undir mín eigin börn ákvað ég að bregða á leik. Ég prófaði að svara ekki spurningunni beint heldur gefa svona í skyn að „Tja, já sko....“ Svo tíundaði ég gæði hans, sagði hann vera hlýjan og rúmgóðan (næstum eins og ég væri að selja bíl).

Og þær urðu ein augu og eyru og biðu spenntar eftir framhaldinu sem oftast kom ekki. Sumar fóru við svo búið, vonsviknar yfir því að fá þetta ekki á hreint, en aðrar voru frakkari og spurðu hreinlega beint út hvort ég ætti í alvöru börn!?

Ég var svo sem nógu gömul til þess að það gæti verið, var þá rúmlega tvítug, en þá fyrst áttaði ég mig á því að sumu fólki fannst hreinlega óhugsandi að „fötluð“ kona gæti átt barn eða börn.

Ég hugsaði lengi um þetta eftir að vagninn seldist og áttaði mig á því að fólk hefði ekki trú á að ég gæti annast barn og alið það upp þó það tryði því vissulega að ég væri fullfær um að búa það til ef ég yrði svo heppin að einhver vildi taka þátt í smíðinni með mér.

Og enn bankar þessi gamli draugur á dyrnar, 17 árum síðar. Enn er ég að hitta fólk sem hefur sterkar skoðanir á því að „fatlaðar“ konur hafi ekkert með það að gera og eigi ekki að eiga börn.

Og fólk er oft að spyrja mig, og hvert annað, hvað mér finnist um það!

Og þá spyr ég ævinlega á móti:

„Hvað er fötlun? Hver er fatlaður og hver ekki?“

Sumir nenna nú varla að velta slíku fyrir sér, þetta er einfalt! Sá sem metinn er til örorku, hann er fatlaður, kerfið segir það! En jú, sumir nefna að konur sem ekki geta, sökum hreyfihömlunar eða þroskaskerðingar, annast líkamlegar þarfir barnsins, þær hafa ekkert með barneignir að gera. En enginn minnist á það einu orði að hreyfihamlaður faðir sé ekki hæfur.

Auðvitað þarf lítið barn líkamlega umönnun og umhirðu, það segir sig sjálft, en gleymum því ekki að það þarf ekki síður ást, umhyggju og öryggi. Og hvort er nú hægara fyrir samfélagið að veita þegar foreldrar geta ekki veitt?

Og stundum verða þessar umræður heitar. Ég held því fram að hreyfihamlaðir foreldrar séu hreint ekkert síðri, og jafnvel betri, uppalendur en margur annar þó hann gangi á tveimur jafnfljótum og sé góður í handbolta. Ég segi að hreyfihamlað fólk sé fullfært um að veita börnum sínum ást og umhyggju og, sé það svo heppið að búa í samfélagi sem byggir á jöfnuði, stjórna því hvernig líkamlegri umönnun þeirra er háttað.

Og svo spyr ég áfram:

„Af hverju þarf mér að finnast eitthvað um það þó kona verði ólétt? Þarf mér að finnast eitthvað um það þó Gunna í næsta húsi sé ólétt? Þarf mér bara að finnast eitthvað um það ef „fötluð“ kona verður ólétt af því hún er „fötluð“?“

Ókey, ef mér verður að finnast eitthvað um það, þá samgleðst ég henni vegna þess að ég er sannfærð um að hún er best til þess fallin að meta það sjálf hvort hún treystir sér í hlutverkið eða ekki.

Á þessu eru of margar hliðar til þess að þeim verði gerð skil í einum stuttum pistli. En það veit sá sem allt veit að mér finnst miklu meira um það þegar fólk, sem telst ófatlað samkvæmt skilgreiningu samfélagsins, en hefur hvorki metnað né áhuga á að ala önn fyrir börnunum sínum né sinna þeim, ég hef mun meiri skoðanir á slíkum barneignum.