„... svo lengi sem barnið fæðist strákur“
Þann 12. júní birtist frétt á Pressunni undir yfirskriftinni: Ný tækni greinir Downsheilkenni í fóstrum á níundu viku: Siðfræðingar deila um ágæti tækninnar. Fréttin fjallar um að sérstakar blóðprufur verði aðgengilegar í haust á Íslandi fyrir foreldra sem vilja kanna hvort barn sé með Downs heilkenni. Í fréttinni segir „Helsti kostur nýju aðferðarinnar er sá að með henni verður hægt að greina heilkennið mun fyrr heldur en með eldri aðferðum. Hægt verður að greina heilkennið allt að níu vikum eftir getnað en hingað til hafa fjórir mánuðir venjulega liðið þar til hægt er að greina erfðagallann." Kom fram hvað þetta væri frábært því þá hefðu foreldrar meiri tíma til ákveða hvort þeir ættu að eyða fóstrinu eða ekki.
Ég velti fyrir mér hvað fólk myndi segja ef ég ætti von á barni og færi fram á að vita hvort það yrði ljóshært, dökkhært eða rauðhært – rauðhærðu barni yrði örugglega svo mikið strítt og ljóshært barn þyrfti örugglega að sitja undir ljóskubröndurum endalaust. Ég myndi því eyða fóstrinu nema að það væri dökkhært.